Sóknarfæri - kynningarblöð fyrir íslenskt atvinnulíf

Sóknarfæri - kynningarblöð fyrir íslenskt atvinnulíf Sóknarfæri eru kynningarblöð með fjölbreyttu efni og auglýsingum um framsækið íslenskt atvinnulíf. Útgefandi er Ritform ehf.

Nýtt tölublað Sóknarfæris er komið í dreifingu, stútfullt af áhugaverðu efni líkt og jafnan áður. Njótið vel og gleðileg...
21/12/2023

Nýtt tölublað Sóknarfæris er komið í dreifingu, stútfullt af áhugaverðu efni líkt og jafnan áður. Njótið vel og gleðilega hátíð.

Sjávarútvegur, Iðnaður, Byggingar

nýtt tölublað af Sóknarfæri sem Ritform ehf. gefur út kemur út í dag. Blaðið er nú að stærstum hluta helgað iðnaði og Ið...
29/08/2023

nýtt tölublað af Sóknarfæri sem Ritform ehf. gefur út kemur út í dag. Blaðið er nú að stærstum hluta helgað iðnaði og Iðnaðarsýningunni 2023 sem verður í Laugardalshöll dagana 31. ágúst - 2. september. Fullt blað af fróðleik um íslenskan iðnað og það sem verður í boði á sýningunni.
Smellið á hlekkinn og lesið ykkur til fróðleiks og skemmtunar.
https://issuu.com/ritform/docs/soknarfaeri_3_tbl_agust_2023_72_100?fr=sMDA1MjY0OTk5NDU

HEILLAÐIST STRAX AF FISKELDINU„Ég heillaðist strax af þessari grein, þetta er virkilega skemmtilegt starf,“ segir Helgi...
06/03/2023

HEILLAÐIST STRAX AF FISKELDINU

„Ég heillaðist strax af þessari grein, þetta er virkilega skemmtilegt starf,“ segir Helgi Már Guðbjartsson sem starfar hjá Benchmark Genetics. Starfsemi fyrirtækisins er á Suðurnesjum og Suðvesturlandi og starfar Helgi Þór hjá klakfiskstöðinni við Vogavík en þar er einnig hrognahús. Helgi stundar nám í fisktækni við Fisktækniskólann í Grindavík og stefnir að því loknu á nám í fiskeldisfræði við Háskólann á Hólum.

Helgi ólst upp í Njarðvík og hafði í tvo áratugi starfað við húsasmíðar. Jafnan var mikið að gera og ekki óalgengt að unnið væri fram á kvöld. „Þegar ég var kominn með fjölskyldu sá ég fljótt að það gengi ekki upp, ég vildi taka meiri þátt í lífi og starfi barnanna minni og fór því að skima um eftir öðru starfi sem byði upp á fjölskylduvænni vinnutíma,“ segir hann. „Ég kastaði mér út í djúpu laugina, ég var smeykur í fyrstu um að þetta ætti ekki við mig en annað kom á daginn,“ segir hann og bætir við að fljótlega hafi komið í ljós að þetta væri starfsvettvangur sem átti vel við hann.

Framtíðin björt í fiskeldinu
„Ég er virkilega ánægður í þessu starfi, þetta er fjölbreytt og skemmtilegt, andinn góður og mér líður bara mjög vel í þessu,“ segir hann. Hann sá sína framtíð innan greinarinnar og hafði löngun til að auka við þekkingu sína. Hann sótti um nám í Háskólanum á Hólum en skorti grunn og byrjar því á að taka fisktækni við Fisktækniskólann. „Þetta er virkilegt gott nám og kerfið hjá skólanum hentar mér einkar vel. Ég er bullandi ADHD maður og var í vandræðum alla mín skólagöngu, en í Fisktækniskólanum er fyrirkomulagið þannig að kennt er í lotum, það er eitt fag tekið fyrir á nokkrum vikum og svo skipt yfir í annað. Það hentar okkur með athyglisbrestinn mjög vel,“ segir hann.

Helgi, sem er 38 ára, segir að skynsamlegt hafi verið að hella sér út í námið. „Ég myndi ekki fara út í þetta á þessum aldri nema af því ávinningurinn er svo mikill. Framtíðin í fiskeldinu er björt, það er mikill uppgangur og margt að gerast og því um að gera að ná sér í menntun á þessu sviði,“ segir hann og bætir við að kjöraðstæður séu á Íslandi fyrir landeldi, bæði sé fyrir hendi nægt land undir starfsemina og vatn. Hann nefnir að félagið sem hann starfi hjá framleiði 18 þúsund máltíðir fyrir Íslendinga á ári og sé liður í fæðuöryggi þjóðarinnar.

Helgi Þór Guðbjartsson starfar í klakfiskstöðinni við Vogavík sem er í eigu félagsins Benchmark Genetics. Hann stundar nám í fisktækni og stefnir á frekara nám við Háskólann á Hólum.

Viðtalið birtist í nýjustu útgáfu Sóknarfæris.

VSÓ Ráðgjöf ÁHERSLA Á SJÁLFBÆRNI OG HRINGRÁSARHAGKERFIÐKröfur um sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa fara sífellt va...
27/02/2023

VSÓ Ráðgjöf
ÁHERSLA Á SJÁLFBÆRNI OG HRINGRÁSARHAGKERFIÐ

Kröfur um sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa fara sífellt vaxandi. VSÓ Ráðgjöf er alhliða ráðgjafar- og verkfræðistofa sem leggur áherslu á að mæta slíkum kröfum með ráðgjöf og hönnun þar sem sjálfbærni og hugmyndafræði hringrásarhagskerfisins er höfð að leiðarljósi. Hjá fyrirtækinu starfar samhentur hópur sérfræðinga með fjölbreytta þekkingu og menntun og byggir víðtæk reynsla starfsfólks VSÓ á þeim fjölbreyttu verkefnum sem fyrirtækið hefur unnið að hér á landi og erlendis. VSÓ ráðgjöf byggir því á traustum grunni en fyrirtækið var stofnað árið 1958 og er með skrifstofur á Íslandi og í Noregi.
Síðustu ár hafa umsvif VSÓ aukist um leið og þjónustan hefur orðið víðtækari. Áhersla er lögð á að veita trausta og faglega þjónustu á sviði umhverfismála, skipulags og mannvirkjagerðar. VSÓ hefur víðtæka reynslu af ráðgjöf á sviði gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunar og starfar samkvæmt vottuðum gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfum.
Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og hringrásarhagkerfisins er höfð að leiðarljósi í rekstri og ráðgjöf og lögð er áhersla á að styðja við vegferð fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana að kolefnishlutleysi og sjálfbæru samfélagi. Markmiðið er að koma með hagkvæmar lausnir sem draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, hámarka auðlindanýtingu, draga úr kolefnisspori og úrgangsmyndun og stuðla að öryggi og vellíðan.

Umfangsmikil verkefni í landeldissuppbyggingu
VSÓ hefur komið að verkefnum í uppbyggingu á landeldi hér á landi með ýmsum hætti, allt frá mati á umhverfisáhrifum yfir í hönnun á mannvirkjum. Þau Erla Björg Aðalsteinsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur og Hlynur Torfi Torfason, skipulagsfræðingur, hafa unnið að nokkrum slíkum verkefnum, bæði mati á umhverfisáhrifum og deiliskipulagi vegna landeldis. Þau segja verkefnin umfangsmikil og að þau reyni á þekkingu á breiðu sviði.
Erla segir að stór þáttur í mati á umhverfisáhrifum sé verkefnisstjórn og að nauðsynlegt sé að þekkja allt ferlið. „Matsvinna getur tekið langan tíma og snýr að mörgum þáttum. Því er mikilvægt að nálgast verkefnin á kerfisbundinn og markvissan hátt.“ Hún segir einnig að mikilvægt sé að framkvæmdaraðili taki virkan þátt í matsferlinu.

Eldisstöðvarnar lagaðar að landslagi og umhverfi
Landeldisstöðvar nýta auðlindir úr nærumhverfinu og geta verið umfangsmiklar í landslaginu. Skoða þarf hvort rask verði á einhverju sem hefur verndargildi, t.d. fornleifum, eldhrauni eða vistkerfum. „Umhverfismatið getur verið nýtt til að draga fram þessi svæði og skoða hvort hægt sé að aðlaga hönnun á eldisstöðinni svo hún falli sem best að landslagi eða hlífi viðkvæmum svæðum,“ segir Erla.
„Í allri okkar vinnu er lögð mikil áhersla á að leita þverfaglegrar þekkingar og samráðs. Góð og sterk tengsl við sérfræðinga og umsagnaraðila sem koma að mati á umhverfisáhrifum eru afar mikilvæg, sem og við aðra hagsmunaaðila. Vægi samráðs í matsvinnunni hefur aukist á síðustu árum,“ segir Erla.
Umhverfismatið fer í gegnum formlegt ferli og í kynningu á vinnslutímanum. Í því ferli hefur VSÓ lagt áherslu á að nýta landupplýsingakerfi til að veita betri yfirsýn yfir verkefni og sveigjanleika í birtingu upplýsinga um einstaka matsþætti.

Vönduð deiliskipulagsvinna er lykilatriði
VSÓ hefur unnið að gerð fjölda svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana og eru skipulagsmál víðtækur málaflokkur sem snertir á einn eða annan hátt flest það sem myndar hið byggða umhverfi sem við búum í.
Hlynur segir vandaða skipulagsvinnu fela í sér þverfaglega yfirsýn og getu til að fást við heildarmyndina og smærri einingar hennar á sama tíma.
„Í deiliskipulagi þarf að byggja á sem bestum gögnum um skipulagssvæði, nýtingarmöguleika þess og líkleg umhverfisáhrif uppbyggingar,“ segir Hlynur en í landeldisverkefnum segir hann deiliskipulag oft gert samhliða mati á umhverfisáhrifum. „Þá samnýtast upplýsingar, rannsóknir og gögn um umhverfisþætti í skipulagsvinnunni og setja fram viðeigandi skilyrði í deiliskipulag. Við deiliskipulag landeldis þarf að setja fram skýran skipulagsramma um umfang og áfangaskiptingu uppbyggingar, auðlindanýtingu, meðhöndlun úrgangs og aðrar mikilvægar forsendur. En jafnframt þarf deiliskipulag að hafa svigrúm til mismunandi hönnunar og útfærslu eldistöðvar, án þess að það kalli á skipulagsbreytingar,“ segir Hlynur.
Hann segir að kröfur um efni og framsetningu deiliskipulags og málsmeðferð séu nokkuð miklar og formfastar en innan fyrirtækisins sé mikil þekking á öllu því sem framkvæma þarf.

Þekkingargrunnur sem nýtist framkvæmdaraðilum
Með þverfaglegu teymi hefur VSÓ innleitt ýmsar nýjungar í skipulagsvinnu, s.s. landgreiningu, kostnaðarmat á framkvæmd skipulags, verndaráætlanir, BREEAM vottun skipulags og fleira. Í teymi VSÓ eru m.a. skipulagsfræðingar, jarðfræðingar, sérfræðingar í frárennslis- og veitumálum, landslagsarkitektar, hagfræðingar og umhverfis- og byggingarverkfræðingar.
Það eru sveitarfélögin sem annast gerð deiliskipulagsáætlana og fjalla um leyfisumsóknir og veita framkvæmdaleyfi. „Við höfum góða þekkingu á málsmeðferð og stjórnsýslunni og getum því leiðbeint framkvæmdaraðila varðandi allt ferlið sem þarf að fara í gegnum í landeldi eða sambærilegum framkvæmdum,“ segir Hlynur.
Þegar skipulagsvinnu og mati á umhverfisáhrifum lýkur er komið að hönnun mannvirkjanna en það er stór þáttur í þjónustu VSÓ Ráðgjafar, allt frá hönnun á burðarvirki og tæknikerfum yfir í orkuútreikninga bygginga, verkstjórn og framkvæmdaeftirlit.

Greinin birtist í Sóknarfæri í febrúar 2023, þar sem fjallað var um fiskeldi.
https://issuu.com/ritform/docs/soknarfaeri_1_tbl_februar_2023_90?fr=sZDM0NjU4MjE2MTI

Nýtt tölublað Sóknarfæris er komið út og í þetta sinn helgum við það fiskeldi, þeirri atvinnugrein sem er hvað mestri só...
27/02/2023

Nýtt tölublað Sóknarfæris er komið út og í þetta sinn helgum við það fiskeldi, þeirri atvinnugrein sem er hvað mestri sókn á Íslandi. Við fjöllum um fyrirtæki í fiskeldi, fyrirtæki sem þjónusta fiskeldisgreinina með margvíslegum hætti og ræðum við fólk sem starfar við fiskeldið. Fjölbreytt 56 síðna blað að vanda.

https://issuu.com/ritform/docs/soknarfaeri_1_tbl_februar_2023_90?fr=sZDM0NjU4MjE2MTI

NÝTT HÚS JARÐBAÐANNA Í NOTKUN Á 20 ÁRA AFMÆLINUJarðböðin við Mývatn eru að hefja framkvæmdir við nýtt þjónustuhús við ...
16/11/2022

NÝTT HÚS JARÐBAÐANNA Í NOTKUN Á 20 ÁRA AFMÆLINU

Jarðböðin við Mývatn eru að hefja framkvæmdir við nýtt þjónustuhús við baðlónið, auk þess sem hluti framkvæmdanna snýr að breytingum á lóninu sjálfu. Áformað er að taka nýja húsið í notkun árið 2024 sem er afmælisár fyrirtækisins en Jarðböðin við Mývatn voru vígð árið 2004. Þangað til verður afgreiðsla, veitingaaðstaða og önnur þjónusta við gesti með óbreyttu sniði í eldra húsinu. Í heild er reiknað með að framkvæmdirnar kosti um tvo milljarða króna. Undirbúningur þeirra hófst árið 2016 og síðan þá hefur verið unnið að breytingum á skipulagi, umhverfismati, leyfismálum, hönnun og öðrum þáttum en framkvæmdirnar voru settar á bið meðan heimsfaraldurinn gekk yfir. Í fyrra var svo hafist handa af fullum krafti í lokahönnun.
„Við höfum stefnt að breytingunum mjög lengi og erum með þessu að færa okkur yfir í algerlega nýja aðstöðu. Núverandi þjónustuaðstaða hefur vaxið í takt við fjölgun gesta en það var kominn tími til að stíga skref fram á við með algjörlega nýju húsnæði sem væri í takt við það besta sem gerist hjá baðstöðum í dag,“ segir Guðmundur Þór Birgisson, framkvæmdastjóri Jarðbaðanna við Mývatn.

Meiri upplifun fyrir gestina
Nýja húsið verður um 2.600 fermetrar að stærð. Guðmundur Þór segir muna miklu að búningsaðstaða verði talsvert rýmri en er í núverandi þjónustuhúsi en í nýja húsinu verður fjölbreytt aðstaða, s.s. slökunarrými, nuddaðstaða og veitingaaðstaða auk afgreiðslu, starfsmannaaðstöðu og annarrar þjónustuaðstöðu sem starfsemin krefst.
„Við getum tekið á móti um 400 gestum í dag og getum eitthvað bætt við með nýja húsinu en fyrst og síðast má segja að við séum að bæta aðstöðuna á öllum sviðum og auka þannig upplifun gesta okkar enn frekar,“ segir Guðmundur Þór.
Núverandi lón verður tengt nýja húsinu og verður innangengt ofan í lónið. Nýja húsið verður á einni hæð og er kappkostað í hönnun þess að húsið falli vel að landslaginu og umhverfinu. „Jafnframt sjálfri byggingunni munum við gera breytingar á lóninu sem hafa líka að markmiði að auka upplifunina okkar gesta. Búa til nokkurs konar upplifunarferðalag fyrir gesti um lónið sjálft,“ segir Guðmundur en víðsýnt er úr lóninu yfir Mývatnssveit og hina ægifögru náttúru sem svæðið hefur uppá að bjóða.

Eldra þjónustuhús líklega fjarlægt
Þó ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun segir Guðmundur Þór að áform séu uppi um að fjarlægja eldra þjónustuhúsið þegar það nýja verður komið í notkun og því má segja að Jarðböðin fái algjörlega nýja ásýnd með þessum framkvæmdum.
Jarðvinnu er nú þegar nánast lokið og reiknar Guðmundur Þór með að útboði og samningum við verktaka um byggingu hússins ljúki nú í nóvembermánuði. Að stórum hluta verður húsið forsteyptar einingar en stál og gler er einnig áberandi í hönnuninni. Hönnuðir eru Basalt arkitektar, Design Group Italia og Efla verkfræðistofa.

VATNSSTAÐA MIÐLUNARLÓNA BETRI EN Í FYRRAVatnsstaða í lónum Landsvirkjunar er talsvert betri nú í upphafi vetrar en var á...
15/11/2022

VATNSSTAÐA MIÐLUNARLÓNA BETRI EN Í FYRRA

Vatnsstaða í lónum Landsvirkjunar er talsvert betri nú í upphafi vetrar en var á sama tíma haustið 2021. Þann 1. október síðastliðinn, þegar nýtt vatnsár hófst hjá Landsvirkjun, voru öll lón full, ef frá er talið Þórisvatn. Í frétt fyrirtækisins segir hins vegar að þrátt fyrir að upphafsstaða miðlunarforðans sé heilt yfir góð þá geti þurft að takmarka framboð á ótryggri orku á hæsta álagspunkti vetrar ef innrennsli verði vel undir meðallagi.
„Í heildina var innrennsli á nýliðnu vatnsári nokkuð undir meðallagi, en vatnsárið var algjörlega tvískipt. Grunnvatnsstaða á Þjórsársvæðinu var í sögulegu lágmarki haustið 2021 eftir langvarandi þurrkatíð á svæðinu og haustmánuðirnir kaldir og þurrir. Niðurdráttur miðlunarlóna hófst í byrjun október og var mjög eindreginn fram í mars. Janúar og febrúar voru snjóþungir mánuðir og innrennsli til miðlunarlóna var í lágmarki,“ segir í frétt Landsvirkjunar.
Gripið var til skerðinga á afhendingu orku til viðskipskiptavina með sveigjanlega orkusamninga til að tryggja afhendingu rafmagns ef seint voraði. Vorið kom hins vegar snemma og það breytti stöðunni hratt.
„Mikil snjóalög á hálendinu skiluðu sér vel inn í miðlunarlón og leiðréttu þannig grunnvatnsstöðu á Þjórsársvæði. Innrennsli sumarsins var síðan yfir meðallagi vestan til en jökulbráð undir meðallagi austan til. Staðan þetta haustið er því mun betri en síðasta haust, vatnsborð Þórisvatns hærra og grunnvatnsstaðan betri.“

UPPBYGGING Í MÚLAÞINGI OG VANTAR FLEIRA FÓLK „Staðreyndin er sú að okkur vantar fólk á svæðið og hér er mikil eftirspurn...
15/11/2022

UPPBYGGING Í MÚLAÞINGI OG VANTAR FLEIRA FÓLK

„Staðreyndin er sú að okkur vantar fólk á svæðið og hér er mikil eftirspurn eftir vinnuafli,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, en í sveitarfélaginu eru mikið að gera í byggingaframkvæmdum, bæði íbúðabyggingum og verkefnum á vegum sveitarfélagsins. Múlaþing varð til árið 2020 við sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi; Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Nýr leikskóli í notkun í Fellabæ
Nýjasta og stærsta fjárfesting sveitarfélagsins í ár er 70 barna leikskóli sem tekinn var í notkun í Fellabæ á dögunum. Auk fyrirsjáanlegra viðhaldsverkefna á fasteignum sveitarfélagsins á komandi árum segir Björn að á 10 ára fjárfestingaáætlun séu skólabygging á Seyðisfirði, stækkun grunnskólans á Djúpavogi, bygging leikskóla á Egilsstöðum, uppbygging íþróttasvæða, lokaáfangi menningarhúss á Egilsstöðum og fleira mætti telja.
„Við leggjum gífurlega áherslu á að byggja upp og standa vel að grunnþjónustunni í öllu sveitarfélaginu enda er hún lykilforsenda þess að fólk vilji setjast að og búa á stöðunum,“ segir Björn.

Íbúafjölgun frá sameiningu
Við sameiningu voru íbúar sveitarfélagsins fimm þúsund og þeim hefur fjölgað um tvö hundruð íbúa frá sameiningu, hlutfallslega mest á Egilsstöðum. Íbúafjölgunin kallar á íbúðabyggingar og segir Björn að mikil umsvif séu hjá byggingaraðilum þessa stundina. Framkvæmdir eru komnar á fulla ferð á tveimur skipulögðum nýbyggingarsvæðum; annars vegar í Selbrún í Fellabæ og hins vegar í Votahvammi á Egilsstöðum. Í heild geta þessi svæði rúmað hátt í 100 íbúðir.
„Síðan höfum við verið í skipulagi á miðbæjarsvæðinu á Egilsstöðum þar sem gert er ráð fyrir fjölbýli og þá eru ótaldar byggingar á öðrum lóðum í bænum. Þessu til viðbótar er verið að byggja átta íbúða kjarna á Seyðisfirði fyrir 55+ hópinn og þar við hliðina fjórar raðhúsaíbúðir. Svo er í farvatninu parhúsbygging á Djúpavogi og í byggingu þar er fimm íbúða raðhús. Það er því óhætt að segja að íbúðabyggingar séu þessa stundina í flestum þéttbýliskjörnum Múlþings, sem segir sína sögu,“ segir Björn.

Nýtt leiguhúsnæði fyrir eldri borgara
Á Egilsstöðum er einnig í byggingu raðhús með 10 leiguíbúðum fyrir eldri borgara. Þær eru byggðar á vegum leigufélagsins Ársala en það félag eiga sveitarfélögin Múlaþing og Fljótsdalshreppur í sameiningu.
„Þegar nýtt hjúkrunarheimili var tekið í notkun árið 2014 létum við frá okkur dvalarheimilisrýmin sem áður voru til að ná að fjölga hjúkrunarrýmunum. Dvalarheimilisrekstrinum var þannig breytt í óhagnaðardrifið leigufélag með 26 íbúðir í rekstri í byrjun og nýja raðhúsið kemur í stað annars sem var þarna fyrir með íbúðum sem voru bæði óhentugar og úr sér gengnar. Þetta fyrirkomulag á leiguhúsnæði fyrir eldri borgara hefur komið vel út að okkar mati.“

Nýjasta útgáfa okkar er komin í dreifingu. Fullt blað af fróðleik.
08/11/2022

Nýjasta útgáfa okkar er komin í dreifingu. Fullt blað af fróðleik.

Read Sóknarfæri by Ritform ehf on Issuu and browse thousands of other publications on our platform. Start here!

Landeldið er í mikilli sókn og nú eru að hefjast framkvæmdir við stækkun Silfurstjörnunnar í Öxarfirði.
07/03/2022

Landeldið er í mikilli sókn og nú eru að hefjast framkvæmdir við stækkun Silfurstjörnunnar í Öxarfirði.

HVAÐ BAR HÆST Á ÁRINU?Sigríður Hrund Pétursdóttir, formaður FKA - Félags kvenna í atvinnulífinu, skrifarKRAFTUR KVENNA E...
27/12/2021

HVAÐ BAR HÆST Á ÁRINU?
Sigríður Hrund Pétursdóttir, formaður FKA - Félags kvenna í atvinnulífinu, skrifar

KRAFTUR KVENNA ER KRAFTUR OKKAR ALLRA

Félag kvenna í atvinnulífinu FKA var í fullri virkni og í sókn með fjölbreytt skipulagt starf á líðandi ári. Fundum og viðburðum var streymt á netinu, félagskonur gátu sótt fræðslu, reynslu og vöxt á öllum tímum sólarhringsins hvar sem þær voru staddar. Félagatal FKA gaf ekkert eftir og er ört vaxandi með 1300 konur alls staðar af landinu, bæði atvinnurekendur og almenna leiðtoga, stjórnendur og millistjórnendur úr atvinnulífinu. Framkvæmdastjóri FKA, Andrea Róbertsdóttir, á eina stöðugildi FKA en annars er allt félagsstarf unnið í sjálfboðaliðastarfi félagskvenna. Árið 2021 var vel nýtt af hálfu félagskvenna í þeirra eigin þágu og samfélagsins alls. Kraftur kvenna er kraftur okkar allra.
Árið 2022 mun bera með sér hvetjandi framsækni eins og Íslendingum er eðlislægt. Við þurfum að eiga orkuskipti á nokkrum sviðum, ekki aðeins í umhverfisog orkumálum heldur einnig í vinnutilhögun. Blöndun í teymum með jafnrétti í fararbroddi eykur líkur á fjölbreyttari sjónarhornum sem er grunnur að grósku, framförum og þroska samfélagsins. Það er allra hagur að framkvæma ákvörðunina um jafnrétti nú þegar.
Þegar gengið er í gegnum breytingar, sem munu reyna á samtakamátt, er affarasælt að mæta jákvæð, samhuga og kraftmikil til verka óháð því á hvaða sviði áskoranirnar eru. Þolinmæði, þrautseigja og þolgæði munu skila góðri niðurstöðu. Lykilatriði er að mæta með gott hugarfar – viðhorf er valkostur og hugurinn ber okkur hálfa leið. Félag kvenna í atvinnulífinu FKA sendir landsmönnum öllum þakkir fyrir líðandi ár og hugheilar hátíðarkveðjur. Megi 2022 færa okkur öllum birtu, von og gæfu.

Greinin birtist í desemberútgáfu Sóknarfæris:
https://issuu.com/ritform/docs/soknarfaeri_framkv_7_tbl_des_2021_72?fr=sMTc3NTQzNzc2Nzg

HVAÐ BAR HÆST Á ÁRINU?Heiðrún Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, skrifarSÓKNARBOLTI MEÐ...
27/12/2021

HVAÐ BAR HÆST Á ÁRINU?
Heiðrún Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, skrifar

SÓKNARBOLTI MEÐ STERKRI VÖRN

Það sem stóð upp úr á árinu sem er að líða, er að enn og aftur sýnir íslenskur sjávarútvegur úr hverju hann er gerður. Fyrirtækin stóðust ágjöfina á tímum COVID-19. Þökk sé öllu því frábæra starfsfólki sem starfar hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi og því fyrirkomulagi sem íslenskur sjávarútvegur býr við. Einnig ber að nefna að eftir tvö mögur loðnuár, sýndi loðnan sig á besta tíma og úr varð ein ágætasta loðnuvertíð síðari ára. Fiskeldið stóð sig ekki síður vel á erfiðum tíma og vöxtur greinarinnar á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir þjóðarhag á komandi árum.
Sóknarfæri í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi eru fjölmörg og þau þarf að sækja. Auka þarf framleiðslu í fiskeldi því fólksfjöldi á heimsvísu eykst ár frá ári. Ljóst er að aukinni spurn eftir fæðu verður ekki mætt nema með eldisaðferðum, svo sem fiskeldi af margvíslegum toga. Í sjávarútvegi hefur þróunin undanfarin ár verið drifin áfram af fjárfestingum, bæði til sjós og lands. Þar eru enn mikil sóknarfæri. Til að tryggja að úr þeim rætist þarf að ráðast í stefnumótun fyrir greinina til langs tíma. Að öðrum kosti vita fyrirtækin ekki til hvers er ætlast af þeim. Hvaða hlutverki á sjávarútvegur að gegna og hvers háttar verðmæti er unnt að gera úr sjávarauðlindinni eru spurningar sem stjórnvöld verða að spyrja og svar óskast fyrr en síðar.

Greinin birtist í desemberútgáfu Sóknarfæris:
https://issuu.com/ritform/docs/soknarfaeri_framkv_7_tbl_des_2021_72?fr=sMTc3NTQzNzc2Nzg

NÝ ÍBÚÐABYGGÐ VIÐ KÓPAVOGSHÖFNEins og margir vita hefur orðið gríðarleg uppbygging á Kársnesi í Kópavogi á síðustu árum ...
24/12/2021

NÝ ÍBÚÐABYGGÐ VIÐ KÓPAVOGSHÖFN

Eins og margir vita hefur orðið gríðarleg uppbygging á Kársnesi í Kópavogi á síðustu árum og samkvæmtskipulagi á að rísa fjölbreytt íbúa- og atvinnuhúsabyggð þar á næstu árum. Nú liggur fyrir vinnslutillaga að nýrri íbúabyggð ofan við Kópavogshöfnina frá Atelier arkitektum en þar er gert ráð fyrir 160 íbúðum.
Svæðið sem um ræðir er þar sem Síldarútvegsnefnd var til húsa á sínum tíma. Reiturinn teygir sig niður að sjávarmáli og má búast við að margir muni kjósa að setjast þar að. Byggðin verður á 2-5 hæðum og íbúðirnar frá stúdíóformi til 5 herbergja. Fyrirhugað er að heildarbyggingarmagn á svæðinu verði 26.675 fermetrar ofan- og neðanjarðar.
Byggðin mun stallast mikið í hæðum vegna landhalla frá Þingholtsbraut að ströndinni. Því muni myndast skjólgóðir og sólríkir inngarðar sem opnist til suðurs. Bílastæði verða að mestu leyti neðanjarðar. Nýja byggðin mun tengjast vel helstu hjóla- og gönguleiðum og í góðum tengslum við almenningssamgöngur en Borgarlína mun liggja skammt frá og fara um fyrirhugaða brú yfir Fossvog inn í miðborg Reykjavíkur.
Miklar deilur hafa verið uppi varðandi uppbyggingu í Kópavogi á síðustu misserum. Vinir Hamraborgar hafa barist gegn skipulagi í gamla miðbæ Kópavogs og Kársnesið okkar hefur látið að sér kveða á Facebook og lýst áhyggjum af of mikilli þéttingu á Kársnesinu.
Skipulagsráð bæjarins hefur samþykkt að kynna tillögu Atelier arkitekta fyrir hagaðilum og lýkur kynningarferli með opnu húsi í Kársnesskóla 13. janúar 2022 kl. 17.

Greinin birtist í desemberútgáfu Sóknarfæris:
https://issuu.com/ritform/docs/soknarfaeri_framkv_7_tbl_des_2021_72?fr=sMTc3NTQzNzc2Nzg

SUMUM FINNST SKATAN ALDREI NÓGU STERKÍ versluninni FISK kompaní á Akureyri byrjaði undirbúningur jólanna um sumarmál síð...
23/12/2021

SUMUM FINNST SKATAN ALDREI NÓGU STERK

Í versluninni FISK kompaní á Akureyri byrjaði undirbúningur jólanna um sumarmál síðasta vor þegar gengið var frá kaupum á jólahumrinum, íslenskum að sjálfsögðu! Þegar nær hefur dregið jólum hefur verslunin smám saman tekið á sig jólalegri blæ; úrvalið aukist í alls kyns sælkeravörum, fiskmeti og kjöti en þó nafnið bendi til annars þá er FISK kompaní ekki bara sælkeraverslun í fiski heldur einnig í kjötvörum. Hátindinum nær undirbúningur jólanna þegar byrjað er að skera Þorláksmessuskötuna sem nú var byrjað á hálfum mánuði fyrir jól. Þau Ragnar Hauksson og Ólöf Ásta Salmannsdóttir, sem rekið hafa FISK kompaní frá árinu 2013, segja yfirstandandi ár hafa verið mjög gott, enda hafi fólk lítið farið erlendis og mikið verið af ferðafólki á Akureyri. „Við héldum að árið 2020 yrði ekki toppað en annað kom á daginn,“ segja þau.

Skötuilmurinn kemur með jólin
Þau hjón eru sammála um að þessi árstími sé einn sá allra skemmtilegasti á árinu í versluninni. „Það er alveg sérstök stemning sem fylgir þessum tíma og ekki síst þegar skötulyktin fer að berast um húsið,“ segja þau hjón. Hálfum mánuði fyrir jól var byrjað að skera skötu í vinnslunni sem FISK kompaní er með í verslunarhúsnæði sínu í Naustahverfi á Akureyri og þau Ragnar og Ólöf Ásta eru þess fullviss að skatan í ár verði herramannsmatur, eins og jafnan áður.
„Viðskiptavinir okkar byrja snemma í desember að spyrja um skötuna, sumir kaupa jafnvel bita til að smakka svo þeir séu alveg 100% vissir um að vera með það besta í skötuveislunni á Þorláksmessu. Skatan í fyrra var sérlega vel kæst og fín en sannarlega hefur fólk mjög misjafnar skoðanir á því hvernig skatan á að vera. Sumir vilja hana mjög kæsta, aðrir minna og þar fram eftir götum. Þeir eru líka til sem finnst skatan aldrei nógu kæst. Þetta er mjög skemmtilegt,“ segja þau.

Fiskur er líka jólamatur
Oft er talað um jólin sem kjöthátíðina miklu og víst er sala á hangikjöti, hamborgarhrygg og ýmsu öðru kjötmeti mikil í FISK kompaní fyrir jólin og yfir hátíðarnar. „Við bjóðum líka á þessum árstíma sérvinnslu á hátíðarréttum eins og Wellington-nauti auk þess sem gjafakörfur sem við útbúum með alls kyns sælkeraréttum eru afskaplega vinsælar,“ segir Ólöf Ásta. Eigendum FISK kompanís lærðist fljótt að þrátt fyrir að kjöt sé í aðalhlutverki hjá flestum um jól og áramót þá eru líka fjölskyldur sem velja fiskrétti í hátíðarmatinn. „Við erum alltaf með opið á aðfangadag fyrir þá sem vilja ná í ferskan fisk til okkar í jólamatinn. Víða erlendis er fiskur miklu þekktari sem jólamatur en kjötið þó það sé ekki þannig á Íslandi. En síðan er það alltaf reynslan að strax þegar við opnum á nýju ári þá streyma viðskiptavinirnir að til að fá sér góðan fisk eftir alla kjötneysluna.“

Gæðin eru aðal atriðið
Hráefni FISK kompanís kemur beint af fiskmörkuðum á nóttunni og undir morgun hefjast Ragnar og samstarfsmenn hans handanna við að vinna fiskinn og gera klárt fyrir fiskborðið þegar verslunin er opnuð kl. 11.
„Við höfum alla tíð lagt höfuðáherslu á gæðin og kaupum eingöngu fyrsta flokks hráefni á mörkuðum, jafnvel þó ódýrara sé í boði. Gæðin eru ofar öllu öðru og allur okkar fiskur er línuveiddur,“ segir Ragnar og viðurkennir að það geti verið misjafnt hvernig gengur að fá fisk en aldrei er þó skortur. „Inn í þetta getur spilað gæftaleysi, minni veiði og samkeppni um hráefnið við útflytjendur. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá sveiflast verðið dálítið til eftir því hvernig eftirspurnin er erlendis,“ segir hann.
Ragnar og Ólöf Ásta segja viðskiptavinahópinn stóran. „Ýsa í mánudagssoðið, fiskibollur, plokkfiskur, fiskur í raspi. Þetta þarf alltaf að vera til í borðinu en svo eru tilbúnu fiskréttirnir sívinsælir. Einfaldir réttir að matreiða fyrir hvern sem er. Í okkar viðskiptavinahópi eru fastakúnnar á öllum aldri og það kemur stundum fyrir að yngstu börnin fá að velja fyrir foreldrana fiskinn í kvöldmatinn. Það eru allar kynslóðir hrifnar af fiski.“

Greinin birtist í desemberútgáfu Sóknarfæris:
https://issuu.com/ritform/docs/soknarfaeri_framkv_7_tbl_des_2021_72?fr=sMTc3NTQzNzc2Nzg

SJÁLFVIRKT MEÐALHRAÐAEFTIRLIT TEKIÐ Í NOTKUNMeðalhraðaeftirlit hefur verið tekið upp á tveimur vegarköflum í íslenska þj...
22/12/2021

SJÁLFVIRKT MEÐALHRAÐAEFTIRLIT TEKIÐ Í NOTKUN

Meðalhraðaeftirlit hefur verið tekið upp á tveimur vegarköflum í íslenska þjóðvegakerfinu, annars vegar í Norðfjarðargöngum og hins vegar á Grindavíkurvegi. Rannsóknir sýna að meðalhraðaeftirlit er áhrifaríkara en punkthraðaeftirlit eins og notað hefur verið til þessa. Í frétt frá Vegagerðinni segir að vonast sé til að hægt verði að fjölga meðalhraðaköflum á næstu misserum. Vegagerðin ber ábyrgð á tæknilegri framkvæmd eftirlitsins, en Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á úrvinnslu og innheimtu sekta.

Meðalhraðinn mældur
Á Íslandi hefur sjálfvirkt punkthraðaeftirlit verið virkt um alllangt skeið, en Vegagerðin kom fyrst að rekstri þess árið 2006 í tengslum við umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Þá er hraði ökutækja mældur á ákveðnum stað á vegi og mynd tekin af þeim ökutækjum sem ekið er hraðar en leyfilegt er. Sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit byggir hins vegar á því að meðalhraði ökutækis sem fer tiltekna vegalengd er reiknaður út með því að deila í vegalengd með tíma. Teknar eru myndir af öllum ökutækjum og búnaðurinn greinir hversu lengi ökumaður var að aka á milli myndavélanna og þannig reiknaður út meðalhraði ökutækisins á kaflanum. Ef útreiknaður hraði er meiri en leyfilegt er telst viðkomandi ökumaður brotlegur og eftir það sér lögregla um frekari úrvinnslu og sektarboð. Öll gögn eru dulkóðuð og myndir af þeim sem ekki eru brotlegir eyðast sjálfkrafa í myndavélunum. Eftirlitskaflarnir hafa verið merktir með skiltum sem gefa eftirlitið til kynna.

Góð reynsla í Noregi
Í Noregi og víðar hafa áhrif sjálfvirks meðalhraðaeftirlits á umferðaröryggi reynst afar jákvæð. Samkvæmt skýrslu Transportøkonomisk institutt, sem kom út árið 2014, fækkaði slysum með meiðslum á fólki um 12-22% og alvarlega slösuðum og látnum fækkaði um 49-54% á köflum þar sem sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit hafði verið sett upp. Þessar tölur eiga við um vegarkaflann milli myndavéla, en auk þess hafa vélarnar áhrif utan vegarkaflans eða allt að þrjá km frá hvorri myndavél.

NÝR BALDVIN NJÁLSSON BÆTIST Í FLOTANN„Skipið reyndist algjörlega frábærlega á heimleiðinni. Við lentum strax í vondu veð...
21/12/2021

NÝR BALDVIN NJÁLSSON BÆTIST Í FLOTANN

„Skipið reyndist algjörlega frábærlega á heimleiðinni. Við lentum strax í vondu veðri, þegar við komum út frá Vigo og vorum í vondu veðri í þrjá sólarhringa á leiðinni. Við tókum svona veðurrúnt sem kallað er. Sigldum eftir veðurspánni. Við sigldum því í norðvestur til að byrja með í sólarhring. Það var ægilegt veður í Norðursjónum og við vorum að spá í að fara Ermasundið, því það var svo vont veður báðum megin við Írland. Þegar komust loks norður af Írlandi fengum við fínasta veður og vorum rétt tæpa fimm sólarhringa að fara 1.400 sjómílur. Þetta gekk mjög vel og skipið reyndist alveg frábærlega. Hreyfðist lítið og fór vel með okkur,“ segir Arnar Óskarsson, skipstjóri á nýjum Baldvin Njálssyni GK 400 sem kom til landsins nú í byrjun desember. Frystitogarinn er 65,6 að lengd og 16 metra breiður. Hann er 2.880 brúttótonn. Lestin er 1.720 rúmmetrar og aðalvélin 3.000 kílówött sem gæti lagst út sem 4.400 hestöfl. Það er þó ekki vélarstærðin sem skiptir öllu máli. Skipið er með risavaxna skrúfu og mikla niðurgírun og snýst skrúfan ekki nema 60 til 80 snúninga á mínútu. Með þessu fæst mikil spyrna og mikil nýtni á hestöflum.

Meiri möguleikar í veiðunum
Skipið er með tæknivædda vinnslu um borð. Auk hausara og flökunarvélar á vinnsluþilfari er viðamikið vinnslukerfi, aðstaða til flakasnyrtingar, flokkunarbúnaður, frystitæki og pökkun og röðun á vörubretti áður en vara er send forflokkuð á vörubrettum niður í lest. Allt vinnsluferlið byggir á mikilli sjálfvirkni og því fremsta í tækni vinnsluskipa í dag.
„Það á eftir að koma í ljós hver vinnslugetan verður um borð,“ segir Arnar aðspurður um afköst skipsins. „Frystigetan á að ná upp í um 80 tonn en við vorum farnir að taka um 60 tonn upp úr sjó á sólarhring á gamla skipinu. Ég vona því að við sjáum eitthvað meira hér. Við erum á blönduðum botnfiskveiðum og karfa og getum dregið tvö toll í einu. Við verðum með þrjú troll um borð og eitt stórt og tvö minni sem eru eins. Þau drögum við þegar aðstæður eru góðar en stóra trollið setjum við eitt undir, til dæmis þegar veður er slæmt. Núna getum við verið með tvö troll á ýsu, sem við gátum ekki áður, þannig að möguleikarnir verða meiri. Þetta gefur okkur mikið svigrúm og verður til dæmis auðveldara að sækja djúpkarfa og gullax með tveimur trollum. Auðvitað þurfum við ekki alltaf að vera með tvö troll. Það er frystigetan í vinnslunni um borð sem ræður ferðinni. Við gætum þess að taka ekki svo mikið að vinnslan hafi ekki undan og höldum því miklum gæðum. Við látum vinnsluna ráða ferðinni. Við getum líka tekið nægilegt magn fyrir vinnsluna með tveimur trollum og stoppað á meðal vinnsla er á fullu til að spara olíu,“ segir Arnar.

Smíðatíminn afrek við þessar aðstæður
Arnar segir útgerðina hafa átt mjög gott samstarf hafi verið við hönnuð skipsins, Sævar Birgisson í Skipasýn.
„Ég held að það hafi tekist vel til og allir séu ánægður. Okkur var strax hleypt að smíði skipsins og erum búnir að vera í marga mánuði úti, ég og vélstjórarnir. Ég fór út sjötta júní og hef síðan þá verið úti að frátöldum fjórum vikum sem ég var í fríi.
Við áttum mjög gott samstarf við Spánverjana í Armon skipasmiðjunni. Þeir smíðuðu skipið á 15 mánuðum, sem er ótrúlegt afrek í miðjum heimsfaraldri. Það stóðst nánast allt upp á staf hjá þeim. Við vorum undir það búnir að afhendingunni myndi seinka eitthvað og vorum vongóðir um að koma skipinu heim fyrir jól en að komast á veiðar fyrir jól var náttúrulega alveg frábært. Við ætlum að taka tvo túra fyrir jól með sitthvorri áhöfninni, til að vera komnir í „full swing“ eftir áramótin.“
Strax og skipið kom til landsins var hafist handa við lokafrágang búnaðar frá íslenskum framleiðendum á vinnsludekkinu og yfirfara hann. Skipið hélt síðan til veiða nokkrum dögum eftir heimkomuna.

Lesa nýjasta Sóknarfæri:
https://issuu.com/ritform/docs/soknarfaeri_framkv_7_tbl_des_2021_72?fr=sMTc3NTQzNzc2Nzg

Address

Vatnagarðar 14
Reykjavík
104

Alerts

Be the first to know and let us send you an email when Sóknarfæri - kynningarblöð fyrir íslenskt atvinnulíf posts news and promotions. Your email address will not be used for any other purpose, and you can unsubscribe at any time.

Contact The Business

Send a message to Sóknarfæri - kynningarblöð fyrir íslenskt atvinnulíf:

Share


Other News & Media Websites in Reykjavík

Show All