09/12/2024
FJÓRAR FIMMSTJÖRNU
Ég lagðist í slæma flensupest um daginn en það var mitt lán í því óláni að eiga góðar ljóðabækur sem ég g*t hallað mér að. Ég hafði sum sé látið undan bókafýsninni, tekið forskot á jólabókasæluna og náð mér í fjórar nýjar ljóðabækur til að lesa á aðventunni. Sé ekki eftir því! Og af því að ég hafði tíma til að liggja (eða g*t ekki annað gert) og hugleiða dálítið ljóðin þá koma hér örstuttir bókadómar. Ég mæli eindregið með ljóðum þessara höfunda, það verður enginn svikinn af stund með þeim!
KALLFÆRI - Guðrún Hannesdóttir ⭐️ ⭐️ ⭐️ ⭐️ ⭐️
Guðrún er seiðkonan. Hún magnar oft svo mikinn galdur með ljóðunum sínum. Ljóðin í Kallfæri renna einhvern veginn áreynslulaust á milli fortíðar og framtíðar, milli lína eru dæmisögur, endurlit, forspár og kannski einhver ákvæði og álagagaldur. Guðrún er líka fundvís á það sérstaka og einstaka sem aðrir myndu ekki endilega telja yrkisefni en tekst alltaf að tengja það því margbrotna og dulúðuga. Í ljóðunum er kallað og hvíslað, andað og sungið, það ískrar, skrjáfar, gjálfrar, brestur – allt er í kallfæri við þann sem les og hlustar eftir hrynjanda orðanna.
JARÐLJÓS – Gerður Kristný ⭐️ ⭐️ ⭐️ ⭐️ ⭐️
Gerður er sagnakonan með meitilinn. Hnífskarpan! Hún færir okkur vissulega snilldarlegar myndir af landi og náttúru, en enginn slær henni við þegar kemur að því að túlka fornar sögur, færa okkur svo ljóslifandi tilfinningar og hugsanir goða og trölla, nístandi og magnaðar myndir sem opinbera kjarna og örlög okkar mannanna. Sögurnar eru ekki allar úr forneskunni, sumar eru mun nær okkur í tíma og þar hvessir Gerður ekki síst pennann fyrir þá sem lítils hafa mátt sín fyrir ofríki og ofbeldi. Allt snertir þar strengi.
FLAUMGOSAR – Sigurbjörg Þrastardóttir ⭐️ ⭐️ ⭐️ ⭐️ ⭐️
Sigurbjörg er töfrakonan! Hún dregur upp úr ljóðahattinum margar furður og kostulegar myndir. Slær í spilastokkinn og sjá: einmitt þegar þú heldur að þú hafir lesið eitt, breytist það í annað! Ljóðin fljúga eins og hvítar dúfur, hverfa á bak við klúta og breytast í blóm – eða kanínu eða öfugt! Og allt í einu hefur skáldið töfrað gullnar myntir úr eyra lesandans … og honum er skemmt! Ef það er einhver stríðni í ljóðum Sigurbjargar þá er hún að minnsta kosti dásamleg.
UNDIR EPLATRÉNU - Olav H. Hauge ⭐️ ⭐️ ⭐️ ⭐️ ⭐️
Ég stóðst ekki mátið og nældi mér í þýðingar Gyrðis Elíassonar á ljóðum skáldsins Olav H. Hauge. Hugsaði sem svo að þetta skáldapar, Olav og Gyrðir, væri einfaldlega fullkomið. Strax við lestur formála hríslaðist um mig gleðin þegar Gyrðir lýsir fyrstu kynnum sínum af Ulvik, heimabæ skáldsins: „… ég náði samstundis undraverðu sambandi við náttúrfar þessa dásamlega fagra byggðarlags.“ Ég veit upp á hár hvað Gyrðir á við.
Um Olav Hauge heyrði ég fyrst þegar ég átti sumardvalir í hinni fögru Ulvik á menntaskólaárunum. Ég vann þar tvö sumur við Garðyrkjuskóla norska ríkisins í góðum félagsskap og vinnan var að sinna gróðri í margvíslegum edenslundum. Þarna frétti af skáldinu sem brá þó sjaldan fyrir. En heimamenn (strákarnir sem við stelpurnar höfðum meiri áhuga á en gömlu ljóðskáldi) báru mikla lotningu fyrir Olav, voru eðlilega stoltir af skáldinu sínu, sveitinni sinni, stórbrotinni náttúrunni og auðvitað sídergerðinni – sem er líka minnst á í formála Gyrðis.
Þýðingar Gyrðis eru auðvitað hreint fyrirtak eins og hans var von og vísa. Textinn á íslensku bætir nýrri vídd við þessi fínu heiðarlegu ljóð norska eplabóndans sem renna hrein og tær til lesandans. Unun að lesa.
Mitt ráð á jólaföstunni: fáið ykkur T&T (te og teppi) og lesið ljóð.
Guðrún Hannesdóttir
Sigurbjörg Þrastardóttir
Forlagið útgáfa
Bókabúð Forlagsins
Dimma