22/03/2024
Minningarorð um Björgvin Gíslason, gítarleikara
Í dag kvaddi ég góðan vin til hinstu hvílu, hann Björgvin Gislason, gítarleikara. Ég birti þau hér á facebook en ekki í Morgunblaðinu, en þeir sem þekktu Bjögga vita jú vel hve lítið dálæti hann hafði á því annars ágæta blaði. Persónuleg vinátta okkar Bjögga hefur svo sem ekki staðið lengi á mælikvarða ævinnar en honum kynntist ég almennilega fyrir rúmum áratug þegar ég leitaði til hans vegna tónlistarstarf míns með unglingum í hljómsveitarstarfi.
Leiðir okkar Björgvins hafa þó legið mun lengur saman. Alveg alveg síðan ég var unglingur, í ,,gaggó” en þá spilaði ég á gítar í bílskúrsbandi. Á þessum árum vorum við strákarnir í hverfinu með mikla tónlistardellu og hlustuðum á allt milli himins og jarðar. Ýmislegt stóð að sjálfsögðu upp úr af því sem við vorum að hlusta á, en á þessum tíma og var platan Glettur með Björgvini Gíslasyni eitt af því sem við vorum að missa okkur yfir. Ég man ennþá hversu vel platan hljómaði í gömlu Pioneer græjunum með Marantz hátölurunum í stofunni heima og eftir öllum þeim stundum sem við vinirnir hlustuðum agndofa á hana. Gítarsándið, og allt! Þetta var æði! Á þessum tíma var ég í Réttarholtsskóla og þar tíðkaðist, að árlega voru gerð stór myndverk af frægum popptónlistarmönnum til að skreyta stóra glugga skólans. Þetta voru engar smámyndir, líklega 2 x 2 m að stærð. Ég man ekki hvert tilefnið þessara veggmynda var en ég man vel eftir því hve miklu púðri við vinirnir eyddum í að búa til eftirmynd af plötuumslaginu af Glettum, þessa flottu svart hvítu mynd þar sem Björgvin heldur á Fender Stratnum hans fræga. Í skólanum hékk svo þessi mynd af Bjögga lengi ásamt öðrum poppstjörnum. Þetta var lang flottasta myndin, okkur fannst eiginlega allt hitt vera eitthvað ,,diskódrasl”, nema veggspjaldið af The Rolling Stones sem einhverjir aðrir krakkar höfðu gert en það hékk við hliðina á Björgvini. Ég vissi það ekki þá, en veit í dag að Bjöggi hefði verið súper ánægður með þá við hliðina á sér!
Eftir að hafa skreytt veggi Réttarholtsskóla lengi vel endaði myndin af Björgvini í bílskúrnum hjá Skara trommara þar sem hljómsveitin okkar Djús, æfði. Þarna vakti hann yfir okkur á hljómsveitaræfingum. Á þessum tíma höfðum við hins vegar hvorki hitt Björgvin í persónu né heyrt hann spila ,live” en mér er það sérstaklega minnisstætt þegar það gerðist fyrst. Það var á litlum tónleikum eða “jammsessíoni” sem fór fram í Hljóðfæraversluninni Tónkvísl á Laufásvegi þar sem við strákarnir, þá fjórtán ára, sáum hetjuna okkar spila í fyrsta sinn. Við vorum þá auðvitað allt of feimnir til að gefa okkur á tal við hann.
Svo fer nú lífið þannig að ég endaði í öðrum tónlistarheimi, ég fór í klassískt píanónám erlendis og leiðin lá í aðrar áttir um stund. Það var svo ekki fyrr en að ég var kominn á fimmtugsaldur að ég kynntist Bjögga persónulega. Þarna voru dætur mínar, sem báðar voru að læra hjá mér á píanó, orðnar unglingar. Þær höfðu lítið gaman af klassískum píanó sónötum sem ég var að reyna að kenna þeim og vildu frekar spila popptónlist. Eitt leiddi að öðru og fljótlega var ég kominn kominn með fullt fangið af unglingum í popphljómsveitarstarfi. Þarna var ég svolítið eins og þorskur á þurru landi því ég hafði varla spilað á gítar síðan ég var unglingur sjálfur. Á þessum nýja vettvangi leitaði ég gjarnan í kunnáttu mér reyndari manna í poppinu. Og viti menn, allt í einu var ég kominn í gítartíma til gamla gítargoðsins hans Bjögga, á heimili hans og Diddu í Meðalholtinu. Þótt við Bjöggi kæmum úr ólíkum áttum, og værum af sitthvorri kynslóðinni þá var bara eins og einhver þráður væri á milli okkar. Ég veit að honum þótti það líka mjög kómískt að vera með klassískan píanóleikara sem kom til hans í heimsókn eftir margra ára háskólanám í tónlist til að læra að spila blússkalann á gítar!
Þessar heimsóknir til Bjögga þróuðust fljótt yfir í hangstundir okkar næstu árin á eftir. Á þessum tíma var aðal vinnutími okkar beggja seinni part dags og á kvöldin og hversu oft byrjaði ég ekki daginn á því að kíkja í kaffi til Bjögga. Þar flatmöguðum við tímunum saman í sófunum og hlustuðum á hverja plötuna eftir annarri. Rétt eins og unglingar gerðu í gamla daga, þar til kennslan tók við, eða þar til Didda kom heim af vakt og sagði: ,,eruð þið tveir ennþá hangandi hérna að gera ekki neitt?” Ég hef eiginlega ekki upplifað svona afslappelsi með vini yfir tónlist síðan ég var unglingur og við nutum þess báðir að hanga svona yfir tónlistinni eins og krakkar.
Það var oft stutt í grínið hjá Björgvini og sérstaklega fannst mér fyndið þegar hann var að leggja mér lífsreglurnar um það hvernig maður yrði ,,töff” í augum unglinganna, en ég hafði þá nefnt við hann að nemendum mínum þætti ég frekar púkalegur, svona miðaldra karl að spila á gítar með þeim og þeir vildu alls ekki hafa mig með sér á sviði. Bjöggi g*t alveg hughreyst mig varðandi þetta. ,,Sko… Þetta snýst bara um aldurinn, því eldri sem þú ert, því betra. Veistu það Ólafur að þegar ég var fertugur eins og þú, þá var ég hallærislegasti maður Íslands. Ég var bara einhver miðaldra karl að reyna að spila og gefa út popptónlist! En svo, þegar ég fór að eldast þá varð ég allt í einu alveg ósjálfrátt að einhvers konar old gítar maestro. Bara svona að sjálfu sér! Allir ungu strákarnir, meira að segja Mugison, vildu endilega fá mig til að spila með sér út um allt. Svona eins og ég væri BB King eða eitthvað svoleiðis! Ólafur minn, hafðu engar áhyggjur af þessu. Þinn tími mun koma”.
Mér er einnig minnisstætt að í nokkur skipti vildi hann endilega gera smá at í nýjum nemendum sínum. Atið fólst í því að þegar nemandinn var að ganga upp stigann til hans þá sagði hann við mig: ,,Sestu við píanóið og spilaðu eitthvað rosalega flókið klassískt!”. Þegar nemandinn var kominn inn úr dyrunum þá lét hann eins og að við værum að klára píanótíma og þóttist hann þá vera píanókennari minn og vera afarstrangur! Skammaðist eitthvað í mér, sagði eitthvað á þá leið að ég þyrfti að leggja mig betur fram og gaf mér skýrar leiðbeiningar hvernig ég gæti bætt ýmis smáatriði í spilinu. Og þarna missti nemandinn alveg andlitið yfir þessum fjölhæfa og stranga kennara sem hann var kominn til sem kenndi ekki bara á gítar heldur líka á klassískt píanó, og hver veit hvað meira!
Hafandi sagt þessa grínsögu af Bjögga þá er það samt þannig að tónlistarlega séð hefur þessi vinur minn haft heilmikil áhrif á það hvernig ég skil tónlist. Á löngum tónlistarferli hef ég verið svo lánsamur að kynnast fólki af hæsta kaliberi í mínu fagi víðs vegar um heim en það sem Björgvin á sameiginlegt með öllum þeim stóru listamönnum sem hafa haft mest áhrif á mig er það hversu falslaus hann var allri sinni túlkun. Falslaus í afstöðu sinni til tónlistar og því sem hann gerði. Aldrei vottaði fyrir sýndarmennsku heldur geislaði hann af frumleika og gleði í öllum sínum verkum.
Bjöggi skilur eftir sig mikið tómarúm. Það verður skrítið að geta ekki lengur bjallað á hann og spjallað fram eftir kvöldi. Þarna missti ég góðan vin en er þó greinilega ekki einn um það eins og aðsóknin í jarðarför hans í dag bar vitni um. Og almáttugur, hvað tónlistin hans var flott í athöfninni. Ég vona að hann hafi heyrt þetta hinum megin frá!
Ég votta Diddu og fjölskyldu innilega samúð mína. Elsa og stelpurnar senda líka kveðju.
Ég læt hér fylgja skemmtilegt myndband af því þegar Bjöggi var svo sætur að spila með krökkunum mínum í unglingastarfinu. Þarna er hljómsveitin White Signal að spila lag hans ,,Láttu hugann reika” af plötunni Glettur.
Krakkarnir í White Signal komu í Poppland og tóku nokkur lög í beinni útsendingu úr Stúdíói 12. Með þeim í för var gamalreyndur og góður leynigestur. Hér t...