
18/12/2024
Í síðasta þætti hlaðvarpsins veltum við því fyrir okkur hvernig það gerðist að allt í einu dúkkaði upp heilmikill Blues áhugi í Bretlandi upp úr 1960. Þar var engin hefð fyrir Amerískum Blues, þannig tónlist var ekki spiluð í útvarpi þar sem BBC taldi að hún væri þeim ekki samboðin og Blues plötur voru fáséðar í plötubúðum.
En þegar Blues tónlistarmenn frá Bandaríkjunum fóru að koma til Bretlands og halda tónleika jókst áhuginn jafnt og þétt.
Þau fyrstu til að koma voru Sister Rosetta Tharpe og Muddy Waters og svo áttu eftir að bætast í hópinn Howlin Wolf, Sonny Boy Williamson, Memphis Slim, Big Bill Broonzy og margir fleiri og sumir komu oftar en einu sinni.
Á þessum tíma var á var Blues tónlist lítils metin í sínu heimalandi og var alger jaðartónlist þar sem m.a.s ungt svart fólk vildi ekkert af henni vita því þetta var tónlist foreldra þeirra og minnti óþægilega á þá tíma þegar svartir þræluðu á bómullarökrunum og voru eign plantekrueigandans rétt eins og svínin og hænurnar og hvítir.
Í Bretlandi var þeim tekið með kostum og kynjum, komið fram við þá af kurteisi og virðingu. Eitthvað annað en flestir þeirra áttu að venjast heima hjá sér. Sumir höfðu jafnvel aldrei setið til borðs með hvítu fólki á veitingastað eða komið inn á heimil þar sem hvítt fólk bjó og aðdáendahópurinn voru ungir hvítir Bretar af millistétt.
En allt um blúsinn í Bretlandi og svo rokkið sem kom á eftir í nýjasta þætti hlaðvarpsins.