![Það kennir ýmissa grasa í Skírni þetta vorið. Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi alþingismaður og núverandi deildarforse...](https://img5.medioq.com/021/457/1085788210214577.jpg)
20/06/2024
Það kennir ýmissa grasa í Skírni þetta vorið. Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi alþingismaður og núverandi deildarforseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, spyr hvort hægt sé að leggja mælistiku nútímans á margra alda gamalt dómskerfi í greininni „Voru nornirnar sekar? Réttarfar í íslenskum galdramálum á 17. öld“. Sem fyrr er lögð áhersla á að birta rannsóknir ungra fræðimanna. Að þessu sinni skrifar Vera Knútsdóttir, nýdoktor í almennri bókmenntafræði, um upprisu kvenhetjunnar á krepputímum í kjölfar fjármálahrunsins og skoðar hvort hana megi finna í tveimur íslensk um samtímasögum, í skáldsögunni Samhengi hlutanna eftir Sigrúnu Davíðsdóttur og sjálfsævisögunni Jarðnæði eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur. Sumarliði Ísleifsson, dósent í hagnýtri menningarmiðlun, ræðir um tilurð Norræna hússins og hvernig stofnun þess var öðrum þræði tilraun til þess að bregðast við ameríkaníseringu íslensks samfélags eftir heimsstyrjöldina síðari en umræðan var flókin vegna aldagamalla tengsla Íslands við skandinavísku nýlenduveldin. Lára Magnúsardóttir doktor í sagnfræði ræðir hið lögbundna menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og kannar hvernig því er framfylgt í grein sinni: „Það sem enginn getur gert nema ríkið. Dagskrárstefna fyrir Rás 1“.
Eins og fyrr er lögð áhersla á það í þessu hefti Skírnis að efla tengsl hugvísinda við raun- og lífvísindi en að þessu sinni ræðir Arnar Pálsson prófessor í lífupplýsingafræði um vísindasögu erfðafræðinnar og dregur meðal annars fram þá kerfisbundnu þöggun sem fór fram á framlagi kvenna í faginu um miðbik síðustu aldar. Arnþór Gunnarsson sagnfræðingur svarar gagnrýni Björns Bjarnasonar fyrrverandi dómsmálaráðherra um bók hans um sögu Hæstaréttar úr síðasta hefti í greininni „Að hitta sjálfan sig fyrir“ og Björn bregst við andmælum Arnþórs í svari sínu „Sæmir ekki sögu Hæstaréttar“.
Í þetta sinn er pólska ljóðskáldið Czesław Miłosz tekið til sérstakrar greiningar af Guðna Elíssyni prófessor í almennri bókmenntafræði en greiningu hans á helstu viðfangsefnum í ljóðum Miłosz fylgja þýðingar Guðna á fimm ljóðum skáldsins. Ljóðskáld Skírnis er Anton Helgi Jónsson en hann hefur um langt skeið verið samstarfsmaður Sossu sem er myndlistarkona Skírnis. Í grein sinni „Skáldið og myndlistarmaðurinn“ fjallar Bergljót Kristjánsdóttir, prófessor emeritus í íslensku, um samstarf þeirra tveggja.
Sigrún Margrét Guðmundsdóttir