Skírnir

Skírnir Skírnir, tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, er eitt elsta menningartímarit Norðurlanda. ?

Það kennir ýmissa grasa í Skírni þetta vorið. Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi alþingismaður og núverandi deildarforse...
20/06/2024

Það kennir ýmissa grasa í Skírni þetta vorið. Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi alþingismaður og núverandi deildarforseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, spyr hvort hægt sé að leggja mælistiku nútímans á margra alda gamalt dómskerfi í greininni „Voru nornirnar sekar? Réttarfar í íslenskum galdramálum á 17. öld“. Sem fyrr er lögð áhersla á að birta rannsóknir ungra fræðimanna. Að þessu sinni skrifar Vera Knútsdóttir, nýdoktor í almennri bókmenntafræði, um upprisu kvenhetjunnar á krepputímum í kjölfar fjármálahrunsins og skoðar hvort hana megi finna í tveimur íslensk um samtímasögum, í skáldsögunni Samhengi hlutanna eftir Sigrúnu Davíðsdóttur og sjálfsævisögunni Jarðnæði eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur. Sumarliði Ísleifsson, dósent í hagnýtri menningarmiðlun, ræðir um tilurð Norræna hússins og hvernig stofnun þess var öðrum þræði tilraun til þess að bregðast við ameríkaníseringu íslensks samfélags eftir heimsstyrjöldina síðari en umræðan var flókin vegna aldagamalla tengsla Íslands við skandinavísku nýlenduveldin. Lára Magnúsardóttir doktor í sagnfræði ræðir hið lögbundna menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og kannar hvernig því er framfylgt í grein sinni: „Það sem enginn getur gert nema ríkið. Dagskrárstefna fyrir Rás 1“.

Eins og fyrr er lögð áhersla á það í þessu hefti Skírnis að efla tengsl hugvísinda við raun- og lífvísindi en að þessu sinni ræðir Arnar Pálsson prófessor í lífupplýsingafræði um vísindasögu erfðafræðinnar og dregur meðal annars fram þá kerfisbundnu þöggun sem fór fram á framlagi kvenna í faginu um miðbik síðustu aldar. Arnþór Gunnarsson sagnfræðingur svarar gagnrýni Björns Bjarnasonar fyrrverandi dómsmálaráðherra um bók hans um sögu Hæstaréttar úr síðasta hefti í greininni „Að hitta sjálfan sig fyrir“ og Björn bregst við andmælum Arnþórs í svari sínu „Sæmir ekki sögu Hæstaréttar“.

Í þetta sinn er pólska ljóðskáldið Czesław Miłosz tekið til sérstakrar greiningar af Guðna Elíssyni prófessor í almennri bókmenntafræði en greiningu hans á helstu viðfangsefnum í ljóðum Miłosz fylgja þýðingar Guðna á fimm ljóðum skáldsins. Ljóðskáld Skírnis er Anton Helgi Jónsson en hann hefur um langt skeið verið samstarfsmaður Sossu sem er myndlistarkona Skírnis. Í grein sinni „Skáldið og myndlistarmaðurinn“ fjallar Bergljót Kristjánsdóttir, prófessor emeritus í íslensku, um samstarf þeirra tveggja.

Sigrún Margrét Guðmundsdóttir

Bókamarkaður hefst kl 12:00 á föstudaginn 19. janúar hjá okkur á Hagatorgi. 30% afsláttur af öllum bókum og fjöldi titla...
18/01/2024

Bókamarkaður hefst kl 12:00 á föstudaginn 19. janúar hjá okkur á Hagatorgi. 30% afsláttur af öllum bókum og fjöldi titla á 300,- 500,- og 800,- krónur!

02/10/2023

Frá og með hausthefti 2023 býðst félögum að fá Skírni rafrænan í stað prentaða eintaksins og spara þannig sendingargjaldið.

Þessi leið hentar vel félögum sem kjósa fremur að lesa á raftæki og hafa ekki þörf fyrir prentgripinn.

Ef félagar vilja fara þessa leið eru þeir vinsamlegast beðnir um að tilkynna það á [email protected] fyrir 10. október n.k.; einnig er hægt að gera það á öðrum tíma og tekur þá gildi frá og með vorhefti,

Hausthefti Skírnis 2022 er komið út! Áskrifendur eiga flestir að hafa fengið heftið og þið hin getið nælt ykkur í eintak...
23/11/2022

Hausthefti Skírnis 2022 er komið út! Áskrifendur eiga flestir að hafa fengið heftið og þið hin getið nælt ykkur í eintak í bókabúðum eða með því að gerast áskrifendur: [email protected].

Í ritinu er óvænt Seyðisfjarðarþema en tvær ritrýndar greinar rýna í sögusviðið fyrir austan: Marteinn Sindri Jónsson heimspekingur skoðar listahátíðina LungA og Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur fjallar um athafnakonuna Pálínu Waage. Ólafur Páll Jónsson heimspekingur bregst við ritgerð Bergsveins Birgissonar „Að skrifa með báðum heilahvelum“, sem birtist í Skírni árið 2019, og Kristín Bjarnadóttir fjallar um áherslu á skilning og að skilja í nýlegum kennslubókum í stærðfræði. Loks er fimmta ritrýnda greinin eftir Atla Antonsson bókmenntafræðing sem spyr hvort íslensk þjóðskáld hafi verið meðvirk með landinu í ljóðum sínum á 19. öld.

Í heftinu er ritdómur Veru Knútsdóttur um bók Guðrúnar Steinþórsdóttur, Raunveruleiki hugans er ævintýri, og umfjöllun Sveins Einarssonar um leikrit Gunnars Gunnarssonar. Þá birtast á síðum Skírnis þýðingar Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur á tveimur smásögum mexíkóska rithöfundarins Amparo Dávila með fróðlegum inngangi. Skáld Skírnis að þessu sinni er Eiríkur Ómar Guðmundsson sem lést í ágúst á þessu ári. Ljóðin eru úr handriti sem hann skildi eftir sig og gaf sonur Eiríks, Kolbeinn Orfeus, góðfúslegt leyfi fyrir birtingunni.

Síðast en ekki síst er myndlistarumfjöllunin að þessu sinni um sýninguna Til Moskvu! Til Moskvu! Til Moskvu! á GES-2 safninu í Moskvu en þar voru verk Ragnars Kjartanssonar og listamanna sem hann valdi í brennidepli. Íslensk þýðing á texta Gunnars Þorra Péturssonar úr sýningarskrá sýningarinnar birtist í Skírni ásamt inngangi, svo og hugleiðingar Ólafar Bóadóttur um nokkur verkanna. Myndin sem prýðir kápu þessa haustheftis er úr verki Ragnars, Santa Barbara.

Ritstjórar Skírnis árið 2022 eru Haukur Ingvarsson og Ásta Kristín Benediktsdóttir.

Hið íslenska bókmenntafélag

25/04/2022

Feneyjatvíæringurinn opnaði með pompi og prakt í apríl. Fulltrúi Íslands að þessu sinni er Sigurður Guðjónsson og er verk hans Ævarandi hreyfing til sýnis í íslenska skálanum.

Sigurður var myndlistarmaður Skírnis haustið 2021 og skrifaði Ragna Sigurðardóttir grein þar sem hún leit yfir feril Sigurðar og gerði grein fyrir helstu höfundareinkennum hans.

Skírnir leyfir sér að vekja athygli á þessari góðu grein um leið og hann vill upplýsa lesendur um að vorheftið 2022 fer í prentun áður en langt um líður - stútfullt af spennandi efni!

Gleðilegt sumar!

Hausthefti Skírnis 2021 er komið út! Forsíðuna prýðir verk eftir Sigurð Guðjónsson, Fluorescent, og í ritinu er umfjöllu...
02/12/2021

Hausthefti Skírnis 2021 er komið út! Forsíðuna prýðir verk eftir Sigurð Guðjónsson, Fluorescent, og í ritinu er umfjöllun Rögnu Sigurðardóttur um verk hans.

Guðrún Kristinsdóttir og Jón Ingvar Kjaran skrifa um kynbundið ofbeldi í nánum samböndum en vísbendingar eru um að það hafi aukist víða um heim í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Í rannsókn sinni beina Guðrún og Jón Ingvar kastljósinu að körlum sem beitt hafa konur sínar ofbeldi og byggja á viðtölum við íslenska karlmenn sem hafa leitað sér hjálpar í kjölfar slíkrar hegðunar. Þannig kanna þau skýringar sem gefnar eru á ofbeldinu, leiðir sem karlarnir fara til að „verða að betri mönnum“ og velta vöngum yfir því hvaða meðferðarúrræði séu vænlegust til árangurs.

Í heftinu er einnig umfjöllun um annað risavaxið vandamál á heimsvísu: loftslagsbreytingar. Silja Bára Ómarsdóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir segja frá ferðalögum sínum til Suðurskautslandsins en þangað fóru þær báðar árið 2019. Þar mættu þeim áþreifanleg áhrif hækkaðs hitastigs jarðar á lífríki og umhverfi og upplifunin snerti þær djúpt. Róttækra aðgerða er þörf og þar skiptir alþjóðleg samvinna fólks af ólíkum kynjum, fagsviðum, aldri og þjóðfélagshópum lykilmáli.

Í ritrýndum ritgerðum líta höfundar út fyrir landsteinana og ekki síður á gagnvirk tengsl Íslands við alþjóðlegt samhengi. Ragnheiður Jónsdóttir fjallar um ensku í slangurorðaforða unglinga hér á landi og byggir á niðurstöðum kannana sem gerðar voru með tveggja áratuga millibili. Þórir Óskarsson færir rök fyrir því að skilja beri ættjarðarkvæði Eggerts Ólafssonar í ljósi stuðnings hans við hið fjölþjóðlega konungsríki sem Ísland var hluti af, ekki síður en ættjarðarástar hans — og Sumarliði R. Ísleifsson skoðar viðhorf Íslendinga til Grænlands á 19. og 20. öld og þátt þessarar nágrannaeyju okkar í mótun sjálfsmyndar þjóðarinnar. Ásgeir Brynjar Torfason og Jón Karl Helgason rýna síðan í hrunbókmenntir, nánar tiltekið glæpasögur Þráins Bertelssonar og gagnrýni þeirra á einkavæðingu ríkisbanka í aðdraganda hrunsins — hinn alþjóðlega peningaleik sem hvergi nærri er lokið.

Sjón fylgir Skírni úr hlaði með ljóði þar sem hann minnist Jóhanns Hjálmarssonar skálds, þýðanda og bókmenntagagnrýnanda. Sjón á tvö önnur ljóð í heftinu en í því er líka að finna smásögu eftir norsku skáldkonuna Lailu Stien í þýðingu Berglindar Óskar Bergsdóttur. Skírnir heldur áfram að birta ritdóma um bækur um bókmenntafræði. Gunnþórunn Guðmundsdóttir rýnir í Fræðaskjóðu: bókmenntafræði fyrir forvitna eftir Bergljótu S. Kristjánsdóttur en hún líkir lestrarupplifuninni meðal annars við það að lesa „spennusögu“!

Skírnir er tímarit Hins íslenska bókmenntafélags. Ritstjórar eru Haukur Ingvarsson og Ásta Kristín Benediktsdóttir. Nýir áskrifendur velkomnir: [email protected].

Hið íslenska bókmenntafélag

Þjóðfræðingurinn og tónlistarkonan AuðR Viðarsdóttir birti grein í nýjasta hefti Skírnis um kynjaðan efnisheim tónlistar...
29/07/2021

Þjóðfræðingurinn og tónlistarkonan AuðR Viðarsdóttir birti grein í nýjasta hefti Skírnis um kynjaðan efnisheim tónlistar, ólík viðhorf sem mæta kynjunum í tónlistarheiminum og um kvennarými, meðal annars sjálfboðaliðasamtökin Stelpur rokka! Auður ræddi fyrr í mánuðinum við umsjónarfólk Tengivagnsins á Rás 1 um rannsóknina og reynslu sína af þessum vettvangi.

Viðtalið byrjar á 41. mínútu: https://www.ruv.is/utvarp/spila/tengivagninn/31849/9fnhci

27/06/2021

Sveinn Helgason var gestur Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi á Bylgjunni (Bylgjan) þar sem hann ræddi greinina Hernám í hálfa öld sem birtist í vorhefti Skírnis 2021. Þar fjallar Sveinn um Litháen í sögu og samtíð út frá sjónarhorni íslensks friðargæsluliða.

Íslendingar hafa fram til þessa ekki haft mikil kynni af indverskum samtímabókmenntum en í nýútkomnu vorhefti Skírnis bi...
17/06/2021

Íslendingar hafa fram til þessa ekki haft mikil kynni af indverskum samtímabókmenntum en í nýútkomnu vorhefti Skírnis birtist smásagan „Skugggálknið“ eftir Uday Prakash. María Helga Guðmundsdóttir, sem einnig er nýr prófarkalesari Skírnis, þýðir söguna úr hindí og fylgir henni úr hlaði með inngangi.

Í innganginum, sem ber fyrirsögnina „Málpólitík á jaðrinum“, fjallar María meðal annars um bókmenntalíf á Indlandi og ýmis vandkvæði sem eru bundin því að hasla sér þar völl á öðrum tungumálum en hindí. Sem dæmi má nefna „smátunguna“ chattísgarhí, móðurmál Prakash, sem 16 milljónir manna tala en er hvorki vettvangur æðri mennta né bókaútgáfu. Prakash hefur því skrifað sínar sögur á hindí og viðfangsefni hans eru bæði framandi og kunnugleg í augum Íslendinga, eins og María rekur:

„Prakash [hefur] reynt að endurheimta hindí úr höndum brahmanisma, skrifa á alþýðumáli og fjalla um málefni sem snerta venjulegt fólk. Hann kryfur til mergjar togstreitu og þversagnir þéttbýlisvæðingarinnar og fjallar á óvæginn hátt um samhangandi kerfi pólitískrar spillingar, kafkaísks skrifræðis, erfðastétta, ofbeldis og fátæktar.“

Skírnir er tímarit Hins íslenska bókmenntafélags og kemur út tvisvar á ári, að hausti og vori. Ritstjórar eru Haukur Ingvarsson og Ásta Kristín Benediktsdóttir. Nýir áskrifendur eru ávallt velkomnir: [email protected].

Vorhefti Skírnis er komið út. Þar birtist meðal annars smásagan „Skugggálknið“ eftir indverska rithöfundinn Uday Prakash...
07/06/2021

Vorhefti Skírnis er komið út. Þar birtist meðal annars smásagan „Skugggálknið“ eftir indverska rithöfundinn Uday Prakash sem María Helga Guðmundsdóttir þýðir úr hindí og fylgir úr hlaði með inngangi. Á árdögum Skírnis var það hlutverk hans að flytja Íslendingum fréttir utan úr heimi og sú ríka áhersla sem núverandi ritstjórar hafa lagt á þýðingar er tilraun til að halda þá arfleið í heiðri. Að þessu sinni er einnig kynntur til sögunnar nýr efnisflokkur, „Af erlendum vettvangi“ en í honum er grein eftir Svein Helgason um sögu og samtíð í Litáen, sem hvort tveggja litast mjög af nábýli við Rússa.

Í heftinu er brugðið upp myndum af ólíkum hliðum íslenskrar samtímamenningar í fjölbreyttum greinum og ritrýndum ritgerðum. Auður Viðarsdóttir beitir aðferðum þjóðfræðinnar til að greina mikilvægi jaðarrýma í listum og horfir í því sambandi annars vegar á femínísku tónlistarsamtökin Stelpur rokka! og hins vegar á upplifun íslenskra tónlistarkvenna af tækni í tónlistarsköpun. Karl Ágúst Þorbergsson ritar um róttæka hópa sem gerðu tilraunir með möguleika sviðslista í upphafi þessarar aldar og Guðrún Lára Pétursdóttir setur sig í stellingar spæjara sem rannsakar hvað sé satt og hverju logið í skáldsögunni Hvítfeld eftir Kristínu Eiríksdóttur.

Aðalsteinn Ingólfsson fjallar um sýningu myndlistarkonunnar Brynju Baldursdóttur á Listasafni Akureyrar og Ófeigur Sigurðsson skrifar skáldlega hugleiðingu um verk og vinnubrögð Sigurðar Ámundasonar sem er myndlistarmaður Skírnis að þessu sinni og mynd eftir hann prýðir forsíðu heftisins. Skáld Skírnis er Ásta Fanney Sigurðardóttir en hún yrkir ljóð, skapar tónlist, fremur gjörninga og býr til myndlist. Lesendur fá að njóta þessara fjölbreyttu hæfileika en í heftinu eru bæði ljóð og mynd eftir hana.

Fortíð og nútíð mætast í heftinu með áhugaverðum hætti. Þórdís Edda Jóhannesdóttir skoðar hvernig japanski teiknimyndasagnahöfundurinn Makoto Yukimura endurritar Jómsvíkinga sögu í sagnabálkinum Vinland Saga og Árni Einarsson greinir frá því hvernig nota má flugsýn flygilda til að rannsaka minjastaði úr lofti. Loks skrifar Vilhelm Vilhelmsson um selveiðar við Húnaflóa frá upphafi átjándu aldar til ársins 1918. Rannsókn hans sýnir að selveiðar uppfylltu ólíkar þarfir á ólíkum tímum sem réðust meðal annars af eftirspurn á erlendum mörkuðum eftir ljósmeti og skinnum.

Um nokkurt skeið hefur lítil umræða farið fram um fræðibækur á sviði bókmennta á íslenskum menningarvettvangi. Vilja ritstjórar því að lokum vekja athygli á ritdómi Halldórs Guðmundssonar um bókina Sögusagnir eftir Jón Karl Helgason.

Skírnir er tímarit Hins íslenska bókmenntafélags. Hann kemur út tvisvar á ári, vor og haust. Ritstjórar eru Ásta Kristín Benediktsdóttir og Haukur Ingvarsson. Nýir áskrifendur ávallt velkomnir: [email protected]

Skáld- og myndlistarkonan Þóra Jónsdóttir hefur ort ljóð og skrifað prósa í nær hálfa öld. Í síðasta hausthefti Skírnis ...
14/05/2021

Skáld- og myndlistarkonan Þóra Jónsdóttir hefur ort ljóð og skrifað prósa í nær hálfa öld. Í síðasta hausthefti Skírnis fjallaði Úlfhildur Dagsdóttir um örsagnasafnið Sólardansinn (2019) og setti í samhengi við önnur verk Þóru. Með greininni birtust auk þess valdir textar úr Sólardansinum með góðfúslegu leyfi útgefandans, bókaútgáfunnar Sæmundar.

Úlfhildur fjallar í grein sinni meðal annars um samtal við fortíð og sagnahefð, sem einkennir höfundarverk Þóru, og hvernig hún skrifar í raun sínar eigin þjóðsögur:
„Skáldkonan tekur klassísk minni og færir þau í sinn sérstæða búning; einmana eiginkona sem íhugar framhjáhald og hittir myndarlegan mann á bar rekur allt í einu augun í að „hófar gægðust undan buxnaskálmum hans“ („Setið við barborð“). Ferjumaður og fljót eru viðfangsefni samnefndrar sögu og hvítur hestur er reiðskjóti konu í „Óvissuferð“. Hún er hikandi og hrædd en áttar sig svo og gefur „reiðskjóta [s]ínum lausan tauminn“. Krummi „krunkar hátt og frekjulega“ þar sem sögukona á leið um og hún rifjar upp að „[s]amkvæmt þjóðtrúnni veit hann lengra en nef hans nær og þykir nokkuð grályndur“. En þrátt fyrir þetta er hrafninn einn af uppáhaldsfuglum konunnar og hún óskar þess að geta slegið „honum gullhamra“ og vill „spyrja hann margs“. Úr því verður ekki, „ég tala ekki fuglamál“. Hér má greina tilvísun í sögur og ævintýri þar sem fuglamál og þekking á því skiptir sköpum, eins og í tilfelli þeirra feðgina, Sigurðar Fáfnisbana og Áslaugar dóttur hans.“

Skírnir er tímarit Hins íslenska bókmenntafélags og kemur út tvisvar á ári. Nýir áskrifendur eru ávallt velkomnir: [email protected].

Í dag fagnar Þórður Tómasson, fyrrum safnstjóri Skógasafns, 100 ára afmæli og ritstjórar Skírnis senda honum innilegar h...
28/04/2021

Í dag fagnar Þórður Tómasson, fyrrum safnstjóri Skógasafns, 100 ára afmæli og ritstjórar Skírnis senda honum innilegar hamingjuóskir af því tilefni.
Þórður er ötull menningarfrömuður og í síðasta hefti Skírnis birtist grein hans um merkilegan stein sem fannst við moldarvinnu í Ásólfsskála árið 1940. Þórður færir fyrir því rök að þar sé um að ræða svokallaðan Ólafsstein sem gerður hafi verið í minningu Ólafs konungs helga.

Skírnir er tímarit Hins íslenska bókmenntafélags og fæst í helstu bókaverslunum. Nýir áskrifendur eru ávallt velkomnir: [email protected]

Address

Hagatorg
Reykjavík

Alerts

Be the first to know and let us send you an email when Skírnir posts news and promotions. Your email address will not be used for any other purpose, and you can unsubscribe at any time.

Contact The Business

Send a message to Skírnir:

Share

Category


Other Magazines in Reykjavík

Show All