28/05/2023
Múlaþing 2023 er komið út troðfullt af áhugaverðu efni. Höfundar í sömu röð og megingreinarnar í heftinu birtast eru: Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra skrifar um aðdraganda að kaupum Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri og ferð Guttorms Pálssonar föður síns til Þýskalands vorið 1936. Erla Dóris Halldórsdóttir sagnfræðingur birtir rannsókn sína á mæðradauða og lækna- og yfirsetukvennaþjónustu í Múlasýslum á 18. og 19. öld og fyrstu árum þeirrar tuttugustu. Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur varpar fram þeirri spurningu í sinni grein um hvort vinnukonur á Austurlandi á 19. öld gátu gengið í hjónaband og Már Jónsson sagnfræðingur varpar ljósi á þróun lestrarkunnáttu í Múlasýslum á síðari hluta 18. aldar. Öll eru þau þrjú þekkt í íslensku vísindasamfélagi fyrir brautryðjandi sagnfræðirannsóknir sínar. Næst víkur sögu til 20. aldar. Bragi Guðmundsson, einnig vel þekktur sagnfræðingur, skrifar með hugvekjandi hætti um Þorstein Valdimarsson skáld, sem var af þeirri kynslóð Austfirðinga sem lifði tímana tvenna, gamla samfélagið á fyrri hluta 20. aldar og allar þær þjóðfélagsbreytingar sem urðu á seinni helmingnum. Fimmti sagnfræðingurinn í hópi höfunda er Unnur B. Karlsdóttir með grein um þýska jarðfræðinginn Emmy M. Todtmann sem m.a. stundaði rannsóknir á Austurlandi á fjórða og sjötta áratug 20. aldar og varð mörgum Íslendingum vel kunn. Múlaþing er þekkt fyrir endurminningar og frásagnir af ýmsu tagi og að þessu sinni er það Baldur Pálsson frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal sem segir frá óvenjulegri ballferð í árslok 1973. Birting eldra efnis fær sinn sess eins og hefð er fyrir í útgáfu Múlaþings. Vigfús I. Ingvarsson skrásetti huldufólkssögu Vilborgar frá Möðrudal. Sigurjón Bjarnason á Egilsstöðum og Ásmundur Þórarinsson á Víðistöðum í Hróarstungu færa lesendum sveitar- og mannlífslýsingu Jóns á Nefbjarnarstöðum í Hróarstungu frá 1928. En hún er í bréfi sem Jón sendi burtfluttum sveitunga sínum, Guðmundi Jónssyni frá Húsey, sem flutti til Vesturheims í byrjun 20. aldar. Sigurjón bjó einnig til prentunar vísur eftir Jóhann Jónsson kennara á Háeyri í samvinnu við Svanbjörgu Sigurðardóttur á Hánefsstöðum í Seyðisfirði, ortar í léttum dúr og fluttar á samkomu skömmu eftir lok hersetunnar en þá ríkti óvissa um framtíð litla þorpsins á „Eyrum“ í Seyðisfirði, sem nú er horfið.