07/08/2022
Reglugerðir
Reglur um skipsbækur Í reglum um skipsbækur nr. 138 frá 1986 og nr. 183 frá 1987 er skýrt kveðið á, um borð í hvaða skipum eigi að færa leiðar- eða dagbók og eins hver þeirra séu undanþegin því. Lög þau og reglur sem hér hafa verið nefnd er að finna í Sjómannaalmanakinu.
Í 1. gr. reglna um skipsbækur segir: "Öll skip skulu halda leiðarbók, nema fiskiskip og skip sem vinna að sérstökum og staðbundnum verkefnum, svo sem sanddæluskip og dýpkunarskip. Þau skip, sem eigi er skylt að halda leiðarbók samkvæmt framansögðu, skulu halda dagbók, séu þau tólf rúmlestir og stærri. Öll skip, sem eru 24 metrar að lengd eða lengri, skulu auk þess halda Véladagbók."
Í 2. gr. reglna um skipsbækur segir: "Gerð skipsbóka skal viðurkennd af Siglingastofnun Íslands, sem fylgist með því að skipsbækur séu fáanlegar."
Í 3. gr. reglnanna segir : "Siglingastofnun Íslands getur heimilað að auk færslu í tilteknar bækur með venjulegum hætti sé notast við sjálfrita." Tölvuskráning aflesturs hinna ýmsu tækja hefur færst í vöxt í nágrannalöndunum. Skipstjóri ber ábyrgð á að bækur séu færðar eins og reglur mæla fyrir um, auk þess sem hann ber ábyrgð á þeim sem skrá þær.
Í 4. gr. reglnanna segir: "Skipstjóri hefur yfirumsjón með færslu skipsbóka og ábyrgist þær, en viðkomandi yfirmenn annast færslu, og ábyrgjast, að rétt sé skráð." Ekki má eyða á neinn hátt því sem skráð hefur verið.
Í 5. gr. reglnanna segir: "Skrá skal allt í skipsbækur eftir réttri tímaröð. Færslur í skipsbækur skulu vera glöggar og skipulegar. Ekki má skafa það af sem skrifað var, draga yfir það eða gera með öðru móti ólæsilegt."